Lög og samþykktir
Lífeyrissjóður bænda var stofnaður með lögum nr. 101/1970 og tók til starfa 1. janúar 1971. Á árinu 1984 fékk sjóðurinn ný heildarlög, nr. 50/1984, og í kjölfar almennrar lagasetningar um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lög nr. 129/1997, voru sjóðnum sett ný heildarlög í mars 1999, lög nr. 12/1999, og tóku þau gildi 1. júlí 1999. Á sama tíma tóku gildi samþykktir fyrir sjóðinn. Með lögum nr. 66/2001 var gerð breyting á lögunum varðandi innheimtu iðgjalda. Með lögum nr. 140/2002 var afnumin skylduaðild þeirra maka bænda sem ekki starfa að búrekstri og jafnframt afnumin skipting iðgjalda milli hjóna/sambúðarfólks nema í þeim tilvikum sem bóndinn hefur óskað eftir skiptingu og makinn óskað eftir aðild að sjóðnum. Með lögum nr. 39/2005 var sjóðnum gert kleyft að taka upp aldurstengingu réttinda og hækka iðgjöld og mótframlög til sjóðsins. Þá voru með lögum nr. 78/2006 felld niður lífeyrisréttindaákvæði laganna þar sem lög un skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, kveða á um lífeyrisréttindin. Auk þess var um að ræða uppstokkun á lögunum til að gera þau skýrari og fjalla þau nú eingöngu um þau atriði sem hafa sérstöðu hjá sjóðnum svo sem varðandi sjóðsaðild, iðgjöld og innheimtu þeirra. Öll ákvæði um lífeyrisréttindi eru eftir sem áður í samþykktum fyrir sjóðinn. Nýjar samþykktir tóku gildi 1. janúar 2007 en með þeim var tekin upp blönduð réttindaávinnsla, þ.e. bæði aldurstengd og jöfn réttindi. Með lögum nr. 167/2006 var mótframlag í sjóðinn hækkað úr 6% í 8%. Nýjustu samþykktir um sjóðinn voru staðfestar af fjármálaráðuneytinu 28. september 2012 og tóku þegar gildi.

Lög um lífeyrissjóð bænda voru felld úr gildi 1. júlí 2018.

Frá og með 1. desember 2018 starfar Lífeyrissjóður bænda á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum og samþykktum er fyrir sjóðinn gilda.