IÐGJÖLD

 

Mótframlag í Lífeyrissjóð bænda var 8% frá 1. janúar 2007 til 30. júní 2016.

Mótframlag launagreiðenda hækkar skv. kjarasamningi sjá frétt og verður eftirfarandi:

Frá 1. júlí 2016:  8,5%

Frá 1. júlí 2017: 10,0%

Frá 1. júlí 2018: 11,5%
Eindagi iðgjalda er síðasti dagur sama mánaðar og iðgjald fellur í gjalddaga (30. hvers mánaðar).

Samþykktir-iðgjöld

Úrdráttur úr samþykktum fyrir Lífeyrissjóð bænda

9.gr. – Iðgjöld
9.1.    Iðgjöld bænda

9.1.1.             Iðgjaldsstofn vegna bænda og maka þeirra sem starfa að búrekstri skal vera reiknuð laun þeirra í landbúnaði samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Iðgjald þeirra bænda og maka þeirra sem reikna sér ekki laun en þiggja laun frá einkahlutafélagi eða öðrum lögaðila, sem rekur bú sbr. 3.2., skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa til þeirra vegna búrekstrar, sbr. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.

9.1.2.             Stofn til innheimtu á mánaðarlegu iðgjaldi bænda og maka þeirra, sem starfa að búrekstri og reikna sér laun, skal miða við reiknað endurgjald í hverjum mánuði eins og það er ákveðið skv. 6. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.

9.1.3.             Með búrekstri í þessu sambandi er átt við búrekstur samkvæmt atvinnugreinanúmerum 01 og 02 í atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT 95, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.4, 01.5 og 02.02. Miða skal við atvinnugreinanúmer 01 og 02 í nýrri atvinnugreinaflokkun ÍSAT2008, þó ekki undirflokka 01.6, 01.7, 02.3 og 02.4. Eftirtaldir flokkar skulu falla undir iðgjaldsstofn Lífeyrissjóðs bænda:

01.1 Ræktun nytjajurta annarra en fjölærra
01.2 Ræktun fjölærra nytjajurta
01.3 Plöntufjölgun
01.4 Búfjárrækt
01.5 Blandaður búskapur
02.1 Skógrækt og önnur starfsemi tengd skógrækt
02.2 Skógarhögg

9.1.4.             Iðgjald bænda til samtryggingar skal ekki vera lægra en 12% af launatekjum.

9.1.5.             Iðgjaldshluti sjóðfélaga skv. gr. 3.2., skal ekki vera lægri en 4% af iðgjaldsstofni sbr. gr. 9.1.1. frá fyrsta næsta mánaðar eftir að 16 ára aldri er náð og til loka þess almanaksmánaðar er 70 ára aldri er náð.

9.1.6.             Á móti iðgjaldi sjóðfélaga skal greitt mótframlag, sem skal ekki vera lægra en 8% af iðgjaldsstofni, sbr. gr. 9.1.1. Mótframlagið skal greitt af sjóðfélaga samhliða iðgjaldi, sé ekki samið um greiðslu þess úr ríkissjóði í búvörusamningi eða með öðrum sambærilegum hætti.

9.1.7.             Sjóðurinn annast sjálfur innheimtu iðgjalda og framlaga skv. gr. 9.1.5. og 9.1.6., ef við á, sbr. gr. 9.1.1. og skal gjalddagi vera tíundi dagur næsta mánaðar eftir launatímabil.

9.1.8.             Á greiðsludögum beingreiðslna samkvæmt búvörulögum skal þrátt fyrir gr. 9.1.7. halda eftir af þeim iðgjaldi og framlagi, ef við á, þeirra sjóðfélaga sem beingreiðslna njóta, fyrir næstliðinn mánuð og skila því til sjóðsins eigi síðar en 30 dögum eftir að það er greitt og skal það sundurliðað eftir sjóðfélögum og tímabilum.

9.1.9.             Greiði sjóðfélagi ekki iðgjald skv. gr. 9.1.5., sbr. gr. 9.1.7., og gr.9.1.10. og mótframlag skv. gr. 9.1.6., ef við á, innan sama mánaðar og iðgjald fellur í gjalddaga eða sé hún vangreidd skulu reiknast hæstu leyfilegu dráttarvextir samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands á þá fjárhæð sem vangoldin er frá gjalddaga til greiðsludags.

9.1.10.          Leiði eftirlit ríkisskattstjóra skv. 6. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, í ljós að iðgjald bónda skv. gr. 9.1.5. og 9.1.6., ef við á, sbr. gr. 9.1.1. hefur verið vangreitt skal sjóðurinn innheimta það sem á vantar. Heimilt er að nota einn gjalddaga fyrir vangoldin iðgjöld ársins, 10. janúar næsta ár.

9.1.11.          Sé greitt iðgjald sbr. gr. 9.1.2. og 9.1.5. hærra en iðgjald skv. gr. 9.1.10. skal sjóðstjórn úrskurða um bakfærslu og endurgreiðslu ofgreiddra iðgjalda en er heimilt að fela framkvæmdastjóra umboð til slíkra úrskurða. Iðgjald sem flutt hefur verið í annan lífeyrissjóð, lán verið veitt út á eða lífeyrir verið úrskurðaður og greiddur út á skal hvorki endurgreitt né réttindi sem af því leiða bakfærð. Vextir skulu reiknaðir á endurgreiðslu iðgjalda samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

9.1.12.          Sjóðfélagi getur óskað eftir því að iðgjaldsstofn hans sé reiknað endurgjald í staðgreiðslu sé það hærra en reiknuð laun hans sbr. gr. 9.1.1. samkvæmt álagningu að liðnu tekjuári.

9.1.13.          Hafi maka bónda sem ekki starfar að búrekstri verið veitt aðild að sjóðnum sbr. gr. 3.3., skal iðgjöldum bónda vegna búrekstrar, sbr. gr. 9.1., skipt á milli þeirra í þeim hlutföllum sem hann hefur óskað eftir skriflega. Skal hlutur makans ganga til öflunar sjálfstæðra lífeyrisréttinda fyrir hann. Þessari skiptingu skal hætt að fenginni skriflegri ósk bónda.

9.1.14.          Um innheimtu iðgjalda bænda og önnur almenn ákvæði fer að öðru leyti eftir ákvæðum gr. 9.2.2. til 9.13. eftir því sem við á.

9.2.     Iðgjöld launþega

9.2.1.             Iðgjald launþega, sem er sjóðfélagi skv. gr. 3.4. eða 3.5., til samtryggingar skal ekki vera lægra en 12% af launum, sem tilgreind eru í gr. 9.3. og 9.4. frá fyrsta næsta mánaðar eftir að 16 ára aldri er náð og til loka þess almanaksmánaðar er 70 ára aldri er náð. Telst ekki lægra en 4% vera iðgjald sjóðfélaga og ekki lægra en 8% vera framlag vinnuveitanda.

9.2.2.              Sjóðfélagar bera sjálfir ábyrgð á að iðgjöldum og framlögum skv. gr. 9.2.1., sbr. gr. 3.4. sé skilað til sjóðsins. Að öðru leyti gilda ákvæði um launþegaiðgjöld í gr. 9.2. til 9.13. um slíkar greiðslur.

9.3.                 Iðgjald skv. gr. 9.1. og 9.2. mynda rétt til samtryggingarverndar samkvæmt ákvæðum samþykkta sjóðsins. Sjóðfélaga er heimilt að hækka iðgjald til samtryggingarverndar enda sé gerður um það sérstakur skriflegur samningur á milli sjóðfélaga og lífeyrissjóðsins. Lífeyrissjóðurinn setur og gefur út skilmála um slíkan samning.

9.4.                 Iðgjald skv. gr. 9.2. skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu. Stofn til iðgjalds skal vera allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru skv. 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Til gjaldstofns skal þó ekki telja hlunnindi sem greidd eru í fríðu, svo sem fatnað, fæði og húsnæði, eða greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, t.d. ökutækjastyrki, dagpeninga og fæðispeninga. Enn fremur skal ekki telja til gjaldstofns eftirlaun og lífeyri sem Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóður greiðir, bætur greiddar af Tryggingastofnun ríkisins, slysa- og sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga og bætur tryggingafélaga vegna atvinnutjóns af völdum slysa. Þá skal telja til iðgjaldsstofns atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

9.5.                 Iðgjaldsstofn manns vegna vinnu hans við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal vera jafnhár fjárhæð skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 59. gr. þeirra laga. Um iðgjaldshlutfall fer eftir gr. 9.2.

9.6.                 Launagreiðanda ber að halda eftir iðgjöldum starfsmanna sinna og standa skil á þeim mánaðarlega ásamt eigin iðgjaldahluta. Gjalddagi iðgjalda hvers mánaðar er 10. dagur næsta mánaðar. Eigi greiðsla sér ekki stað innan mánaðar frá lokum iðgjaldsgreiðslutímabils, skulu reiknast hæstu leyfilegu dráttarvextir samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands á þá fjárhæð sem vangoldin er, frá gjalddaga til greiðsludags. Launagreiðendum og sjálfstæðum atvinnurekendum ber að tilkynna lífeyrissjóðnum ef þeim ber ekki lengur að standa skil á lífeyrisiðgjaldi þar sem þeir hafa hætt starfsemi eða starfsmenn þeirra hafa látið af störfum. Launagreiðendur og sjálfstæðir atvinnurekendur skulu senda skilagrein með iðgjaldinu þar sem m.a. koma fram iðgjaldshlutföll og iðgjöld hvers aðila sem skal renna til samtryggingar. Lífeyrissjóðurinn setur og gefur út reglur um form skilagreinarinnar. Liggi ekki annað fyrir skal við innheimtu iðgjalds miðað við að iðgjaldshluti launamanns sé 4% en launagreiðanda það sem umfram er.

9.7.                 Sjóðfélagar bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með öðru en iðgjöldum sínum.

9.8.                 Iðgjöld sjóðfélaga, sem launagreiðandi hefur sannanlega haldið eftir af launum hans, en ekki staðið skil á til sjóðsins, svo og mótframlag launagreiðandans, skal þrátt fyrir vanskilin meta að fullu til réttinda fyrir viðkomandi sjóðfélaga við úrskurð lífeyris, enda hafi sjóðnum verið kunnugt um þessi vanskil, sbr. gr. 9.9. og 9.11. Þó ber lífeyrissjóðurinn ekki ábyrgð á réttindum sjóðfélaga vegna þeirra iðgjalda sem glatast við gjaldþrot og Ábyrgðarsjóður launa ber ekki ábyrgð á, skv. 5. gr. laga nr. 88/2003. (Um er að ræða stjórnarmenn og stjórnendur gjaldþrota fyrirtækis, maka þeirra og skyldmenni, samkvæmt nánari reglum stjórnar Ábyrgðarsjóðs launa.)

9.9.                 Tvisvar á ári skal senda sjóðfélögum yfirlit yfir greidd iðgjöld vegna þeirra. Yfirlitinu skal fylgja áskorun til sjóðfélaga að gera án tafar athugasemdir, ef vanhöld koma í ljós á iðgjaldaskilum. Sjóðurinn skal samtímis með opinberri auglýsingu skora á alla þá sem telja sig hafa greitt iðgjöld til sjóðsins á undangengnu tímabili og ekki fengið yfirlit samkvæmt framanskráðu, að gera sjóðnum án tafar viðvart um ætluð vanskil. Hafi athugasemdir frá sjóðfélaga, staðfestar með launaseðlum, ekki borist sjóðnum innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits eða birtingu auglýsingar, sé það síðar, og sjóðnum ekki verið kunnugt um iðgjaldakröfuna, er sjóðurinn einungis ábyrgur fyrir réttindum á grundvelli iðgjalda þessara að því marki sem þau fást greidd. Samhliða yfirliti þessu skal eigi sjaldnar en einu sinni á ári senda upplýsingar um áunninn og væntanlegan lífeyrisrétt sjóðfélaga, rekstur og fjárhagsstöðu sjóðsins og breytingar á samþykktum. Sömu upplýsingar skal senda þeim sjóðfélögum sem náð hafa ellilífeyrisaldri. Heimilt er að senda yfirlitin með rafrænum hætti til sjóðfélaga óski sjóðfélagi eftir því.

9.10.                 Senda skal lokaaðvörun til launagreiðenda, ef iðgjöld samkvæmt innsendum skilagreinum hans hafa verið í vanskilum í þrjá mánuði frá eindaga. Formlega innheimtu skal hefja innan 15 daga frá útsendingu lokaaðvörunar eða fyrr sé rökstudd ástæða til að ætla að iðgjaldskrafa sé ótrygg.

9.11.                 Iðgjöld í vanskilum, sem sanna má með innsendum launaseðlum, skulu innheimt með sama hætti og skilagreinar launagreiðenda. Lokaaðvörun til launagreiðenda skal senda innan 90 daga frá dagsetningu yfirlits skv. gr. 9.9. Heimilt er lífeyrissjóðnum að byggja innheimtuaðgerðir á áætlunum um ógreidd iðgjöld, enda hafi hlutaðeigandi launagreiðandi ekki skilað inn skilagreinum til sjóðsins fyrir viðkomandi tímabil. Um innheimtu fer að öðru leyti eftir gr. 9.10.

9.12.                 Öllum innborgunum launagreiðenda, hvort heldur sem þær berast með nýrri skilagrein eða öðrum hætti, skal ráðstafa til greiðslu elstu ógreiddra iðgjalda og vanskilavaxta launagreiðenda og skapa réttindi samkvæmt því. Stjórn sjóðsins er þó heimilt að víkja frá þessari reglu í því tilfelli þegar hafin hefur verið formleg innheimta iðgjalda í vanskilum sbr. gr. 9.10. fyrir ákveðið tímabil og fullnægjandi trygging hefur fengist fyrir greiðslu iðgjalda, vanskilavaxta og innheimtukostnaðar vegna þess tímabils. Ennfremur ef lög kveða á um annað samanber meðferð mála á greiðslustöðvunartímabili launagreiðenda. Skilagrein telst ógreidd þar til innborgun nægir til fullrar greiðslu skilagreinarinnar og áfallinna vanskilavaxta á hana.

9.13.                  9.13. Á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans getur sjóðfélagi ákveðið, að iðgjöld skv. gr. 9.1. og 9.2. skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans, sbr. gr. 11.5. b. Þessari skiptingu iðgjalda skal hætt að ósk sjóðfélaga, enda framvísi hann skilríkjum um að fjárfélagi hans og maka hans hafi verið slitið eða aðilar hafi gert með sér nýtt samkomulag.

 

Bændur

Iðgjöld bænda eru 4% af launum við landbúnað.

Iðgjöld þeirra bænda sem reikna sér laun eru 4% af reiknuðum launum í landbúnaði. Iðgjöldin skulu greidd mánaðarlega og iðgjaldsstofn vegna bænda og maka þeirra sem starfa að búrekstri skal vera reiknuð laun samkvæmt greinargerð um reiknað endurgjald í ársbyrjun. Geri bændur breytingar á reiknuðum launum þurfa lífeyrissjóðnum að berast staðfestingar á þeim frá skattstofum. Hafi bóndi einnig með höndum aðra starfsemi en landbúnað ber honum að láta sjóðnum í té skiptingu reiknuðu launanna.

Greiða skal iðgjöld af búrekstri samkvæmt atvinnugreinanúmerum 01 og 02 í atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT 95, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.4, 01,5 og 02.02. Miða skal við atvinnugreinanúmer 01 og 02 í nýrri atvinnugreinaflokkun ÍSAT2008, þó ekki undirflokka 01.6, 01.7, 02.3 og 02.4. Sjá grein 9.1.3. í samþykktum.

Bændur sem eru aðilar að einkahlutafélögum eða öðru lögformlegu búrekstrarformi, þar sem laun eru í formi greiddra launa, greiða einnig 4% iðgjald af launum vegna búrekstrar til sjóðsins.

Launþegar

Iðgjöld launþega

Frá 1. Janúar 2023 eru iðgjöld hjá öllum launþegum og þeim sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur 15,5% af heildarlaunum og eru 4% iðgjald og 11,5% mótframlag.

Frá 1. Júlí 2018 voru iðgjöld launþega  í landbúnaði svo og þeirra bænda sem kusu að greiða iðgjöld til sjóðsins af atvinnutekjum, sem þeir hafa af öðru en búrekstri 15,5% af heildarlaunum og eru 4% iðgjald launþegans og 11,5% mótframlag launagreiðanda.

Frá 1. júlí 2016 voru iðgjöld launþega í landbúnaði svo og þeirra bænda sem kusu að greiða iðgjöld til sjóðsins af atvinnutekjum, sem þeir höfðu af öðru en búrekstri 12,5% af heildarlaunum og voru 4% iðgjald launþegans og 8,5% mótframlag launagreiðanda. (Frá 1. janúar 2007 til 30. júní 2016 voru heildariðgjöld 12% og mótframlag atvinnurekenda 8%. Fyrir 2007 voru heildariðgjöld 10% og mótframlag atvinnurekanda 6%).

Iðgjaldaskil
Launagreiðanda ber að halda eftir iðgjöldum starfsmanna sinna og standa skil á þeim mánaðarlega ásamt eigin mótframlagi. Gjalddagi er 10. dagur næsta mánaðar eftir launatímabil.

Vanskil
Eindagi iðgjaldagreiðslna er síðasti dagur sama mánaðar og iðgjald féll í gjalddaga. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga sé ekki greitt fyrir eindaga.

Eftirlit Ríkisskattstjóra með iðgjaldagreiðslum
Eftirlit RSK (ríkisskattstjóra) með iðgjaldagreiðslum í lífeyrissjóði

Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða hefur ríkisskattstjóri eftirlit með því að allir landsmenn greiði iðgjöld af öllum launum sínum í lífeyrissjóð. Í lögum nr. 66/2001 er ákvæði um að bændur falli undir þetta eftirlit, en meðan álagning iðgjalda bænda fór fram lentu þeir utan eftirlitsins.

Eftirlitið fer þannig fram að atvinnutekjur, þ.e. bæði launatekjur og reiknuð laun, eru bornar saman við upplýsingar um iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóði. Öllum lífeyrissjóðum ber að láta RSK í té upplýsingar um iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga sinna hvert ár í þessu augnamiði.

RSK sendir lífeyrissjóðunum upplýsingar um þá aðila sem ekki hafa greitt iðgjöld í lífeyrissjóði af öllum sínum tekjum og ber lífeyrissjóðunum að innheimta vangreidd iðgjöld.

Leiði eftirlit ríkisskattstjóra skv. 6. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, í ljós að iðgjald bónda skv. gr. 9.1.5., og 9.1.6., ef við á sbr. gr. 9.1.1., hefur verið vangreitt skal sjóðurinn innheimta það sem á vantar.  Heimilt er að nota einn gjalddaga fyrir vangoldin iðgjöld ársins, 10. jánúar næsta ár.

Iðgjaldainnheimta

Iðgjöld bænda
Iðgjöld bænda í lífeyrissjóð eru 4% af reiknuðum launum í landbúnaði eða greiddum launum bænda af búrekstri og ber að standa skil á þeim mánaðarlega.

Iðgjöld aðila einkahlutafélaga
Þar sem búrekstri er þannig háttað að einkahlutafélag hefur verið stofnað um reksturinn og laun aðila búrekstrarins eru í formi greiddra launa, skal félagið halda eftir iðgjaldi af laununum og skila því til lífeyrissjóðsins mánaðarlega.

Vanskil
Eindagi iðgjaldagreiðslna er síðasti dagur sama mánaðar og iðgjald fellur í gjalddaga. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga sé ekki greitt fyrir eindaga.

Leiði eftirlit ríkisskattstjóra skv. 6. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, í ljós að iðgjald bónda skv. gr. 9.1.5., og 9.1.6., ef við á sbr. gr. 9.1.1., hefur verið vangreitt skal sjóðurinn innheimta það sem á vantar.  Heimilt er að nota einn gjalddaga fyrir vangoldin iðgjöld ársins, 10. jánúar næsta ár.