Greiðslujöfnun verðtryggðra fasteignaveðlána

Með lagabreytingum sem tóku gildi 1. nóvember 2009, verður öllum afborgunum á verðtryggðum lánum einstaklinga, sem tryggð eru með veði í fasteignum hér á landi, nú greiðslujafnað þannig að greiðslubyrði tengist hér eftir greiðslujöfnunarvísitölu í stað upphaflegrar vísitölu láns. Um leið stofnast greiðslujöfnunarreikningur sem tengist hverju láni en á hann færist sá mismunur sem er á hverjum gjalddaga milli afborgunar samkvæmt upphaflegum skilmálum og afborgunar samkvæmt greiðslujöfnun, inn eða út af reikningnum. Í lok lánstíma skal lántaki greiða af því sem eftir stendur á greiðslujöfnunarreikningi, ef eitthvað er, með greiðslum sem jafnar eru síðustu afborgun af láni á umsömdum lánstíma, en þó aðeins í þrjú ár. Það sem enn stendur eftir á greiðslujöfnunarreikningi að loknum framangreindum þremur viðbótargreiðsluárum skal afskrifað, þ.e. gefið lántaka eftir og afmáð úr veðbókum.

Greiðslujöfnun verður sjálfkrafa sett á öll verðtryggð fasteignaveðlán frá og með gjalddaga í desember 2009.

Greiðslujöfnun verðtryggðra lána sem tekin eru fyrir 1. janúar 2008 felst í að lántakinn greiðir sömu krónutölu sem viðmiðunargreiðslu af láni og hann gerði á gjaldaganum í janúar 2008. Sú viðmiðunarfjárhæð breytist síðan í takt við greiðslujöfnunarvísitölu sem tekur mið af þróun atvinnustigs og launa, og er gefin út mánaðarlega af Hagstofu Íslands.

Greiðslujöfnun verðtryggðra lána sem tekin eru eftir 1. janúar 2008 felst í að lántakinn greiðir viðmiðunargreiðslu af láni sem miðast við vísitölu neysluverðs sem gilti við útgáfu lánsins, og breytist viðmiðunarfjárhæðin síðan í takt við greiðslujöfnunarvísitölu. Lántakinn greiðir þannig svipaða upphæð af láninu og hann gerði á fyrsta reglulega gjalddaga.

Þeir sem ekki vilja fá greiðslujöfnun á lán sín verða að tilkynna það eigi síðar en 19. nóvember 2009 vegna gjalddaga í desember. Eftir að lán er komið í greiðslujöfnun getur lántaki sagt sig frá henni með tilkynningu til lánveitanda í síðasta lagi 10 dögum fyrir næsta gjalddaga lánsins.

Úrsögn úr greiðslujöfnun: hér

Kostir greiðslujöfnunar
· Léttari greiðslubyrði sem er líklegri til að henta betur við núverandi efnahagsaðstæður.

· Afborganir fylgja greiðslujöfnunarvísitölu sem tekur mið af atvinnustigi og launaþróun.

· Það kostar ekkert að setja lán í greiðslujöfnun og hægt er að segja greiðslujöfnuninni upp hvenær sem er.

Ókostir greiðslujöfnunar
· Möguleiki á að lán lengist en þó aldrei lengur en sem nemur þremur árum af upprunalegum lánstíma.

· Greiðslujöfnun getur falið í sér hærri kostnað í formi vaxta og verðbóta.

· Eignarmyndun í húsnæði getur orðið hægari til skamms tíma.

Nánari upplýsingar á island.is og á vef félagsmálaráðuneytisins:

ISLAND.IS

FÉLAGSMÁLARÁÐUNEYTIÐ