A. Lífeyrissjóður bænda er aðili að samkomulagi um tímabundna greiðslufresti á afborgunum og vöxtum fyrirtækjalána vegna heimsfaraldurs COVID-19.
Um er að ræða samstarf lánveitenda, banka og lífeyrissjóða, þannig að við umsókn um frestanir á greiðslum fyrirtækjalána þá nægir að fyrirtækið uppfylli ákveðin skilyrði en bankinn þarf ekki að leita til síðari veðhafa um samþykki á frestun á greiðslum afborgana og vaxta í allt að 6 mánuði, og lengur ef þurfa þykir.
Fram kemur í samkomulaginu: Gildistími samkomulags er frá 22. mars 2020 til 30. júní 2020 og kann að framlengjast ef aðstæður kalla á slíkt. Með fyrirtækjum sem samkomulagið nær til, („fyrirtæki“) er átt við fyrirtæki sem eru í heilbrigðum rekstri og verða fyrir tímabundnu tekjufalli sem leiðir til rekstrarvanda vegna heimsfaraldursins, höfðu ekki verið í vanskilum 60 daga eða lengur í lok febrúar síðastliðinn og hafa nýtt viðeigandi úrræði stjórnvalda vegna heimsfaraldursins sem þeim stendur til boða. Um er að ræða rekstrarfyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem selja vöru og þjónustu. Eignarhaldsfélög falla ekki undir samkomulagið. Mat á því hvort fyrirtæki fellur undir þetta samkomulag: Aðalviðskiptabanki (eða sparisjóður) fyrirtækis leggur mat á hvort fyrirtækið uppfyllir skilyrði þessa samkomulags að fenginni umsókn fyrirtækisins og tilkynnir öðrum aðilum þessa samkomulags um niðurstöðu matsins, enda hafi fyrirtækið veitt sannanlega heimild fyrir slíkri upplýsingamiðlun. Frestun greiðslna: Allar afborgana- og vaxtagreiðslum á skuldum fyrirtækja við aðila skal frestað í allt að sex mánuði. Frestun nær ekki til iðgjalda til lífeyrissjóða. Frestaðar greiðslur afborgana og vaxta skulu leggjast við höfuðstól og skal samningstíminn lengjast sem nemur fjölda frestaðra afborgana. Sé um að ræða skuldir án gjalddaga frestast greiðsla til loka samningstíma þessa samkomulags. Frestaðar greiðslur skulu bera sömu vexti og upphafleg skuld. Samstarf samningsaðila einskorðast við ákvæði samkomulagsins. Samkomulagið hindrar ekki að lánveitendur geti veitt viðskiptavinum sínum frekari greiðsluerfiðleikaúrræði en samkomulag þetta mælir fyrir um eða keppi að öðru leyti á grundvelli viðskiptaskilmála.
B. Úrræði sjóðsins til annarra en fyrirtækja um greiðsluhlé á sjóðfélagalánum.
Stjórn samþykkti að heimila að fengnu samþykki stjórnar skuldurum sjóðfélagalána greiðsluhlé á greiðslu afborgana og vaxta í allt að sex mánuði hjá þeim sem verða fyrir tekjusamdrætti í kjölfar COVID-19. Greiðsluhlé þetta nær til þeirra sem ekki fá úrræði sín leyst samkvæmt samkomulagi banka og lífeyrissjóða um tímabundna greiðslufresti fyrirtækjalána.