Á ársfundi Lífeyrissjóðs bænda 28. júní 2019 var stjórn sjóðsins í fyrsta skipti kosin á ársfundi. Með brottfalli laga nr. 12/1999 um Lífeyrissjóð bænda hætti fjármála- og efnahagsráðherra að skipa í stjórn sjóðsins eftir tilnefningu Hæstaréttar, landbúnaðarráðherra og Bændasamtaka Íslands. 

Í breyttum samþykktum sjóðsins, sem tóku gildi 21. janúar 2019, kemur fram í gr. 5.1 að stjórn sjóðsins skuli skipuð fimm mönnum kjörnum á ársfundi sjóðsins til fjögurra ára í senn.

Einn stjórnarmaður skal kosinn á ári, í fyrsta sinn á ársfundi sjóðsins 2019 þó þannig að fjórða hvert ár skal kjósa tvo, í fyrsta sinn 2020. Varamenn í stjórn skulu vera tveir. Einn varamaður skal kosinn á ársfundi sjóðsins annað hvert ár til fjögurra ára í senn í fyrsta sinn á ársfundi sjóðsins 2019. Þó skal á ársfundi 2019 kjósa tvo varastjórnarmenn, annan til tveggja ára og hinn til fjögurra ára.

Í ákvæði til bráðabirgða í samþykktum sjóðsins kemur fram að núverandi stjórn og varastjórn skulu starfa áfram þar til endurnýjun í samræmi við gr. 5.1 í samþykktunum hefur átt sér stað.

Framboð á ársfundi 2019 voru um eitt laust sæti í aðalstjórn og tvö sæti varamanna samkvæmt samþykktum sjóðsins. Úr aðalstjórn gekk Sara Lind Guðbergsdóttir og úr varastjórn Ívar Pálsson, Karl Kristjánsson, Oddný Steina Valsdóttir og Guðrún S. Tryggvadóttir. Fráfarandi stjórnarmönnum eru færðar þakkir fyrir vel unnin störf.

Framboð í aðalstjórn barst frá Ernu Bjarnadóttur og  í varastjórn frá þeim Jóhanni Má Sigurbjörnssyni og Oddnýju Steinu Valsdóttur. Voru þau kjörin í stjórn sjóðsins á fundinum, Erna og Oddný Steina til næstu fjögurra ára og Jóhann til næstu tveggja ára. Eftirtalin skipa stjórn sjóðsins, aðalstjórn: Erna Bjarnadóttir, Guðrún Lárusdóttir, Skúli Bjarnason, Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir og Örn Bergsson og í varastjórn: Oddný Steina Valsdóttir og Jóhann Már Sigurbjörnsson. Á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar í framhaldi af ársfundi sjóðsins var ákveðið að Skúli Bjarnason yrði áfram formaður stjórnar