Í tilefni af frétt um Lífeyrissjóð bænda sem birtist í Bændablaðinu 6. júlí 2023 vill stjórn sjóðsins taka eftirfarandi fram:
Lífeyrissjóður bænda stendur traustum fótum og tryggingafræðileg staða er innan leyfilegra marka eftir ákvæðum laga um lífeyrissjóði.
Eins og komið hefur fram í fyrri tilkynningum þá sögðu fjórir aðalmenn í stjórn Lífeyrissjóðs bænda af sér eftir síðasta ársfund, sem haldinn var 26. maí 2023. Í kjölfar þess tóku tveir varastjórnarmenn sæti í aðalstjórn. Stjórn sjóðsins er nú skipuð Guðrúnu Lárusdóttur, formanni, Jóhanni Má Sigurbjörnssyni, varaformanni og Oddnýju Steinu Valsdóttur. Stjórnin er starfhæf og fullnægir starfsemi sjóðsins öllum viðeigandi lögum og reglum og lýtur að auki, líkt og aðrir lífeyrissjóðir, eftirliti fjármálaeftirlitsins.
Vegna afsagnanna úr stjórn hefur verið boðað til aukaársfundar sjóðsins þann 31. ágúst n.k. þar sem stjórnarkjör verður á dagskrá. Samhliða vinnur stjórn að breytingum á samþykktum sjóðsins til að skýra reglur um stjórnarkjör.
Ný stjórn sjóðsins sem kjörin verður í sumarlok mun skoða hvernig starfsemi Lífeyrissjóðs bænda verður best hagað til framtíðar með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi.