Mótframlag launagreiðenda í lífeyrissjóð hækkar um 1,5% 1. júlí 2017 og verður þá 10%, en iðgjald launþega verður óbreytt áfram, 4%. Sjóðfélagar hafa val um hvort viðbótarframlaginu, 2%, verður ráðstafað í samtryggingu eða tilgreinda séreign hjá sjóðnum.

 

 

 

Með samkomulagi ASÍ og SA 21. janúar 2016 var ákveðið að mótframlag launagreiðenda á almennum vinnumarkaði skyldi hækka í áföngum úr 8% í 11,5%. Fyrsti áfanginn gekk í gildi 1. júlí 2016 þegar mótframlagið hækkaði í 8,5%. Annar áfangi gengur í gildi 1. júlí 2017 þegar mótframlagið verður 10%. Síðasti áfanginn tekur gildi á næsta ári, 1. júlí 2018 þegar mótframlagið verður 11,5%. Þá verður heildariðgjaldið orðið 15,5% af launum. Samkomulagið gildir einnig um launþega í landbúnaði samkvæmt kjarasamningi milli Starfsgreinasambands Íslands (SGS) og Bændasamtaka Íslands (BÍ) sjá frétt.  Kjarasamninginn má nálgast hér

Bændur athugið: Sjálfstæðir atvinnurekendur greiða áfram 8,0% mótframlag. Aðeins er skylda að hækka mótframlag fyrir launþega. Bændum er hins vegar frjálst að hækka sitt mótframlag einnig.

Allt viðbótarframlagið fer í samtryggingardeild nema sjóðfélagi óski eftir að því verði ráðstafað í tilgreinda séreign. 

Tilgreind séreign byggir á 3. mgr. 4. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þar sem mælt er fyrir um heimild lífeyrissjóðs til að ákveða lágmarkstryggingavernd þannig að iðgjaldi sé varið að hluta til öflunar lífeyrisréttinda í séreign og að hluta til öflunar lífeyrisréttinda í sameign. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. sömu laga getur sjóðfélagi ákveðið að ráðstafa til annars aðila en þess lífeyrissjóðs sem tekur við iðgjaldi vegna hans þeim hluta iðgjalds sem renna skal til séreignar skv. 3. mgr. 4. gr. Skal viðkomandi launagreiðandi eða lífeyrissjóður í slíkum tilvikum færa greiðslu samkvæmt ákvörðun sjóðfélaga til annars aðila án sérstaks kostnaðarauka fyrir sjóðfélagann, sbr. 2. mgr. 5. gr. sömu laga.  Í 3. mgr. 7. gr. reglugerðar 391/1998, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, kemur fram til viðbótar við það sem að framan hefur verið rakið að lífeyrissjóði sé skylt að upplýsa sjóðfélaga um rétt þeirra til að ráðstafa framangreindu iðgjaldi til annars aðila. í 2. mgr. 7. gr. sömu reglugerðar kemur svo fram að velji sjóðfélagi að ráðstafa séreignarhluta iðgjalds vegna lágmarkstryggingaverndar til annars aðila skuli um útborgun séreignarinnar gilda sömu reglur og gilda myndu fyrir séreignarhlutann í þeim lífeyrissjóði sem hann greiðir samtryggingarhluta iðgjaldsins til.  Í 20. kafla samþykkta sjóðsins, sem eru nú til staðfestingar hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, er að finna ákvæði sem gilda um tilgreinda séreign.

Tilgreind séreign verður eign sjóðfélagans, en útgreiðsla háð öðrum reglum en hinnar almennu frjálsu séreignar. Tilgreind séreign er laus til útgreiðslu frá og með 67 ára aldri sjóðfélaga, en þó er hægt að hefja útgreiðslu allt að fimm árum fyrr með því að dreifa greiðslum til 67 ára aldurs.

Tilgreind séreign er erfanleg eins og aðrar einkaeignir samkvæmt ákvæðum erfðalaga.  Tilgreinda séreign verður ekki unnt að nota til að safna til húsnæðiskaupa eða til að greiða skattfrjálst niður húsnæðislán.

Þegar framlagi umfram 12% skylduframlag er ráðstafað að hluta eða öllu leyti í tilgreinda séreign verða iðgjöld sem renna í samtryggingu lægri en ella. Því verður áunninn réttur til ævilangs lífeyris lægri sem því nemur. Sama gildir um rétt til áfallatrygginga s.s. örorku-, maka- og barnalífeyris.

Sjóðfélagar geta frá og með 1. júlí 2017 óskað eftir því að ráðstafa öllu sínu iðgjaldi umfram 12% í tilgreinda séreign. Þá verður það 2% fram til 1. júlí 2018 en hækkar eftir það í allt að 3,5%.

Tilkynning um ráðstöfun viðbótariðgjalds í tilgreinda séreign:

Vilji sjóðfélagi ráðstafa viðbótariðgjaldi í tilgreinda séreign þarf hann að veita upplýst samþykki sitt með sérstakri undirritaðri tilkynningu sem verður aðgengileg á vef sjóðsins frá og með 15. júlí 2017. Ef tilkynning berst ekki sjóðnum verður iðgjaldi áfram ráðstafað í samtryggingardeild.

  • Hægt er að sækja um að ráðstafa iðgjaldi umfram 12% að hluta eða öllu leyti í tilgreinda séreign frá og með 1. júlí 2017, þó svo hækkunin komi ekki að fullu til framkvæmda fyrr en 1. júlí 2018.
  • Ekki er þörf á að tilkynna launagreiðenda um ráðstöfun iðgjalds í tilgreinda séreign.
  • Ekki er hægt að láta þegar ráðstöfuð iðgjöld renna í tilgreinda séreign, þ.e. tilkynningin er ekki afturvirk.
  • Lífeyrissjóðurinn gerir breytingar á ráðstöfun iðgjalds til samræmis við ákvörðun sjóðfélaga eins fljótt og kostur er og eigi síðar en tveimur almanaksmánuðum frá því að tilkynningin berst með sannanlegum hætti.
  • Að ári, 1. júlí 2018 hækkar lífeyrissjóðsiðgjald launagreiðenda svo um 1,5% til viðbótar og verður 11,5%. Heildarframlag í lífeyrissjóð verður þá 15,5%.
  • Tilgreind séreign er laus til útborgunar frá og með 62 ára aldri. Greiðslum skal þá dreifa að lágmarki til fimm ára eða til 67 ára aldurs, nema um sé að ræða óverulegar fjárhæðir.
  • Hægt er að sækja um útgreiðslu tilgreindu séreignarinnar vegna örorku eða fráfalls eiganda. Gilda þá sömu reglur um útreiðslu og eiga við um annan frjálsan séreignarsparnað.

Á vefsíðu Lífeyrissjóðs bænda www.lsb.is, er eyðublað, sem sjóðfélagi þarf að fylla út, vilji hann ráðstafa iðgjaldi umfram 12% í tilgreinda séreign.

Allar upplýsingar verður að finna á vefsíðu sjóðsins auk þess sem starfsfólk veitir upplýsingar í síma 5631300.