Á árinu 2020 hafði sjúkdómurinn COVID-19 áframhaldandi veruleg samfélags- og efnahagsleg áhrif á heimsvísu, mikið atvinnuleysi og skorður við margvíslegri atvinnustarfsemi.

Staða og framvinda sjúkdómsins hefur verið ólík milli einstakra landa og heimsálfa.  Ísland hefur ásamt flestum öðrum löndum gengið í gegnum sína dýpstu efnahagslægð síðustu áratuga. Þar hefur vegið þyngst hrun í ferðaþjónustu. Væntingar eru hins vegar til þess að dragi úr áhrifum þessa sjúkdóms á árinu 2021 og líf fólks geti færst í eðlilegra horf, að minnsta kosti í þeim löndum sem ná víðtækri bólusetningu við COVID-19. 

Áhrifin á rekstur, efnahag og sjóðstreymi Lífeyrissjóðs bænda á árinu hafa verið óveruleg. Við aðstæður sem þessar er vert að undirstrika mikilvægi áhættudreifingar hjá lífeyrissjóðum, sem er grunnþátturinn í eignasöfnum þar sem fjárfestingartími er langur. Til að ná fram áhættudreifingu fjárfestir Lífeyrissjóður bænda meðal annars í ólíkum eignum og eignaflokkum.

Sjóðurinn vann með sjóðfélögum og launagreiðendum á árinu með farsælum hætti og hagaði rekstri á skrifstofu í samræmi við sóttvarnaraðgerðir á hverjum tíma. Rafrænar samskiptaleiðir voru notaðar í vaxandi mæli.

Þrátt fyrir neikvæð áhrif sjúkdómsins á efnahags- og markaðsaðstæður á árinu 2020, varð mikill vöxtur á hreinni eign sjóðsins. 

Hrein eign til greiðslu lífeyris hjá Lífeyrissjóði bænda nam 40,4 milljörðum króna í árslok 2020, hækkaði um 3,1 milljarð króna milli ára eða 8,4%. Hreinar fjárfestingartekjur námu 4,2 milljörðum króna á árinu 2020. Góð ávöxtun eignsafnsins skilaði bata í trygginga-fræðilegri stöðu sjóðsins.

Ávöxtun eignasafnsins 2020 var ein sú hæsta í sögu sjóðsins.  Hrein nafnávöxtun, þ.e. ávöxtun þegar rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá hreinum fjárfestingartekjum var 11,2% sem samsvarar 8,3% raunávöxtun.

Hrein raunávöxtun síðustu fimm ára er 4,8%, sem er marktækt umfram þau 3,5% sem almennt er miðað við varðandi þá ávöxtunarkröfu sem gerð er til lífeyris-sjóðanna.  Enn hærri er hún þegar horft er til síðustu 10 ára eða 5,1%. 

Árið einkenndist af hárri ávöxtun hlutabréfa, innlendra sem erlendra. Gengisveiking krónu skilaði hárri ávöxtun erlendra skuldabréfa, nokkru hærri en  innlendra skuldabréfa.

Vægi erlendra verðbréfa í eignasafni sjóðsins var 28,3% í lok árs 2020, hækkaði um 3,3 prósentustig frá fyrra ári. Á tveimur árum hefur hlutur erlendra eigna sjóðsins vaxið um þriðjung,  úr 21,1% af eignasafni í 28,3%.

Sjóðfélögum, lífeyrisþegum, starfsfólki, stjórn og samstarfsaðilum er þakkað ánægjulegt samstarf á liðnu ári  og óskað velfarnaðar í framtíðinni.

Skúli Bjarnason

Formaður stjórnar