Ársreikningur Lifeyrissjóðs bænda 2022

Skýrsla stjórnar

  1. apríl 2023

Lífeyrissjóður bænda er öllum opinn en er jafnframt starfsgreinasjóður bænda, maka þeirra og þeirra sem starfa í landbúnaði. Lífeyrissjóður bænda starfar samkvæmt samþykktum sjóðsins,  lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og öðrum reglum sem um lífeyrissjóði gilda.

Hlutverk lífeyrissjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt gildandi lögum og samþykktum sjóðsins.  Sjóðurinn rekur samtryggingardeild og eru iðgjöld 4% framlag launþega og 11,5% framlag atvinnurekanda.

Breytingar á lífeyrissjóðalöggjöfinni sem tóku gildi 1. janúar 2023: 

  • Lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð hækkar úr 12% af launum í 15,5%,
  • sjóðfélagar hafa heimild til að ráðstafa allt að 3,5% af launum til svokallaðrar tilgreindrar sér-eignar með þrengri útborgunarheimildir en hefðbundinn séreignarsparnaður,
  • séreign af lágmarksiðgjaldi verður ekki lengur undanþegin skerðingum almannatrygginga eða þátttöku í dvalarkostnaði á stofnun fyrir aldraða og
  • einstaklingar geta ráðstafað tilgreindri séreign skattfrjálst til kaupa á fyrstu fasteign að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

 

Frjáls viðbótarlífeyrissparnaður, sá sparnaður sem takmarkast við 4% framlag rétthafa og 2% mótframlag launagreiðanda af iðgjaldsstofni, skerðir ekki  greiðslur frá almannatryggingum.

Viðsnúningur á fjármálamarkaði 2022

Eftir miklar hækkanir á verðbréfamörkuðum undanfarin ár varð viðsnúningur á árinu 2022 og var þróun á verðbréfamörkuðum ekki hagfelld fjárfestum. Lækkun var á öllum helstu mörkuðum sem kom fram í neikvæðri ávöxtun hjá lífeyrissjóðum 2022. Óvissa vegna stríðsátaka og orkumála í Evrópu, vaxandi verðbólgu og hækkandi meginvaxta Seðlabankans leiddi til hækkunar á ávöxtunarkröfu á skuldabréfamörkuðum og lækkunar á eignamörkum, bæði á skuldabréfum og hlutabréfum.

Málefni IL-sjóðs

Íbúðalánasjóður hóf útgáfu á skuldabréfum með ríkisábyrgð (HFF bréfum) árið 2004 til að fjármagna útlán Íbúðalánasjóðs. Bréfin eru verðtryggð með 3,75% vöxtum og samkvæmt skilmálum bréfanna er ekki heimilt að greiða þau hraðar upp en samningsbundnir gjalddagar segja til um. Bréfin eru að mestu í eigu lífeyrissjóða og verðbréfasjóða, m.a. Lífeyrissjóðs  bænda sem á HFF bréf með lokagjalddaga 2034 og 2044.

Vegna slæmrar stöðu Íbúðalánasjóðs, ÍL-sjóðs, gaf fjármálaráðherra út yfirlýsingu 20. október 2022 þess efnis að hann teldi best að ná samkomulagi við eigendur bréfanna um uppgjör og slit sjóðsins. Fjármálaráðherra boðaði að ef ekki gengi að semja væri sá möguleiki til staðar að slíta sjóðnum með lagasetningu og ráðstafa eignum hans til skuldauppgjörs. Í kjölfar yfirlýsingar ráðherra lækkaði verðmæti HFF bréfa með lokagjalddaga 2034 og 2044 um 8,6% og 15,8%.

Vegna óvissu um framhald máls, hafa HFF bréfin verið verðlögð miðað við svokallað kröfuvirði en það samsvarar því að núvirða framtíðargreiðsluflæði þeirra á 3,78% ávöxtunarkröfu. Ávöxtunar-krafa sambærilegra ríkisskuldabréfa er aftur á móti nú á bilinu 1,6% – 1,8% og felst því tjón skuldabréfaeigenda í tapaðri framtíðarávöxtun upp á mismuninn á þessu tvennu eða 2,0% – 2,2%. Eignarhlutur  Lífeyrissjóðs bænda í HFF bréfum, lækkaði markaðsvirði eignasafns lífeyrissjóðsins um 959 m.kr. eða 2,3% í lok árs 2022. Sú lækkun kann að ganga til baka ef fjármálaráðherra verður gerður afturreka með þennan ásetning sinn um slit á IL-sjóði. Lögfræðiálit hafa gefið til kynna að fyrirhuguð lagasetning fjármálaráðherra um gjaldþrot og skuldaskil ÍL-sjóðs fari í bága við stjórnarskrá og að slík inngrip fælu í sér eignarnám og skerðingu eignarréttinda og myndi skapa ríkinu bótaskyldu gagnvart skuldabréfaeigendum, að stærstum hluta lífeyrissjóðum, sem hafa farið fram á fullar efndir til framtíðar við uppgjör eignarhlutar í HFF bréfum.

 

 

Ársreikningur, helstu rekstrarniðurstöður

Ársreikningur Lífeyrissjóðs bænda er gerður í samræmi við lög um ársreikninga, lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og reglur Fjármálaeftirlitsins um ársreikninga lífeyrissjóða. Í reglunum er meginreglan sú að eignir skulu metnar á gangvirði og er byggt á þeirri reglu í ársreikningnum.

Hrein eign til greiðslu lífeyris nam 41.028 m.kr. í árslok 2022, lækkaði um 4.080 m.kr. frá fyrra ári eða um 9,0% en jókst um 4.730 m.kr. 2021 eða um 11,7%.

Ávöxtun     

Hrein nafnávöxtun, þ.e. ávöxtun þegar rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá hreinum fjárfestingartekjum, var -6,1% sem samsvarar -14,2% raunávöxtun. Sambærilegar tölur fyrra árs voru 14,7% og 9,4%. Hrein árleg raunávöxtun síðustu fimm ára var 2,6% og síðustu 10 ára 3,3%.

Fjárfestingartekjur og rekstrarkostnaður

Þróun hreinna fjárfestingartekna lífeyrissjóða var ekki hagfelld lífeyrissjóðunum á árinu 2022 og var ávöxtun bæði skuldabréfa og hlutabréfa verulega neikvæð auk þess sem mikil og vaxandi verðbólga á árinu jók á neikvæða raunávöxtun sjóðanna. Hreinar fjárfestingartekjur sjóðsins voru neikvæðar um 2.557 m.kr. á árinu 2022 á móti 6.005 m.kr.  jákvæðum fjárfestingartekjum árið áður. Rekstrarkostnaður, þ.e. skrifstofu- og stjórnunarkostnaður nam 170,8 m.kr. á árinu 2022 á móti 139,5 m.kr. árið áður. Stöðugildi voru fjögur á árinu 2022 á móti 4,25 stöðugildum árið áður.

Fjöldi sjóðfélaga og iðgjöld    

Á árinu 2022 voru virkir sjóðfélagar 2.030, þ.e. sjóðfélagar sem að jafnaði greiða iðgjöld með reglubundnum hætti í hverjum mánuði. Iðgjaldagreiðslur námu 769 m.kr. á móti 790 m.kr. árið 2021, lækkuðu um 2,6%. Í árslok 2022 áttu 10.768 einstaklingar réttindi í sjóðnum.

Fjöldi lífeyrisþega og lífeyrisgreiðslur

Á árinu 2022 fengu 4.455 lífeyrisþegar greiddan lífeyri á móti 4.494 árið á undan. Meðaltal fjölda lífeyrisþega, sem fékk greiddan lífeyri á árinu var 4.036 á móti 4.039 árið áður. Heildarlífeyrisgreiðslur námu 2.121 m.kr. á árinu 2021 á móti 1.925 m.kr. árið áður, sem er 10,2% hækkun frá fyrra ári. Lífeyrisbyrði sjóðsins, þ.e. lífeyrisgreiðslur í hlutfalli af iðgjaldagreiðslum, var 275,8% á móti 243,7% árið áður.

Sjóðfélagalán

Sjóðurinn veitir verðtryggð sjóðfélagalán. Engin ný lán voru veitt á árinu 2022. Heildarfjárhæð útistandandi lána í lok ársins var 1.871 m.kr., lækkaði um 129 m.kr. milli ára eða um 6,4%. Sjá skýringu nr. 14 og 15 í ársreikningi.

Tryggingafræðileg staða og nýr reiknigrunnur

Í tryggingafræðilegri athugun felst að reikna annars vegar áfallnar skuldbindingar miðað við áunninn lífeyrisrétt sjóðfélaga og hins vegar heildarskuldbindingar miðað við að virkir sjóðfélagar greiði áfram til sjóðsins þar til þeir hefja töku lífeyris. Heildarskuldbindingar lífeyrissjóðs eru þannig samtala af áfallinni skuldbindingu og framtíðarskuldbindingu. Niðurstaða athugunar á tryggingafræðilegri stöðu í árslok 2022 sýnir að heildarskuldbindingar sjóðsins voru 9,3% umfram heildareignir en voru 3,2% umfram heildareignir í árslok 2021. Verðmæti eigna sjóðsins að meðtöldum iðgjöldum reiknast 48.971 m.kr. og skuldbindingar vegna lífeyris og rekstrarkostnaðar reiknast 54.010 m.kr. Staða sjóðsins reiknast innan þeirra marka sem áskilin eru bæði í samþykktum Lífeyrissjóðs bænda og lögum nr. 129/1997 miðað við stöðu á árinu 2022. Staða sjóðsins reiknast í lok árs 2022 innan leyfilegra marka eftir ákvæðum laga um lífeyrissjóði.

Í lok árs 2022 samþykkti Fjármála- og efnahagsráðuneytið nýjar samþykktir sjóðsins þar sem réttindaöflun til framtíðar er aðlöguð að breyttum aðferðum við að meta lífslíkur. Þannig vinnur hver árgangur sér mismunandi rétt til framtíðar, sem er í samræmi við betri lífslíkur þeirra sem yngri eru. Í lok árs 2021 hafði ráðuneytið fallist á tillögur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga (FÍT) um breytingar á dánar- og eftirlifendatöflum sem nota skal við mat skuldbindinga íslenskra lífeyrissjóða. Tillögurnar fólu í sér að miðað skyldi við að aldursbundnar dánarlíkur myndu eftir 2016 breytast í samræmi við reiknilíkan sem FÍT lagði fram. Samkvæmt líkaninu munu aldursbundnar dánarlíkur fara lækkandi næstu áratugi. Breytingar eru áætlaðar mismunandi eftir fæðingarárgangi, aldri og kyni. Notkun líkansins leiðir til hærra mats lífeyrisskuldbindinga. Fengu lífeyrissjóðir val um hvort líkanið yrði notað við mat skuldbindinga strax við lok árs 2021, eða hvort því yrði frestað um eitt ár.

Afstaða stjórnar Lífeyrissjóðs bænda var að nota skyldi þær forsendur sem réttastar væru þekktar, og var því hið nýja reiknilíkan notað við mat á stöðu sjóðsins í lok árs 2021. Breytingin leiddi til hærra mats skuldbindinga en verið hefði með fyrra mati, og var niðurstaðan að réttindi sem þáverandi samþykktir sjóðsins veittu til framtíðar myndu verða um 20% meiri en fjármögnuð yrðu með iðgjöldum. Ljóst er að enginn lífeyrissjóður verður rekinn með þeim hætti til lengdar, og má telja að það væri í beinni andstöðu við ákvæði laga um lífeyrissjóði nr. 129/1997 þar sem segir í 1.mgr. 27. gr.: „Samþykktir lífeyrissjóðs skulu við það miðaðar að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar“. Stjórn sjóðsins lét því snemma árs 2022 vinna tillögur til samþykkta-breytinga þar sem réttindaöflun var löguð að hinum nýju forsendum. Tillögurnar voru lagðar fram og afgreiddar á ársfundi sjóðsins. Um var að ræða nýjar réttindatöflur í samræmi við reiknilíkan FÍT fyrir lífslíkur fyrir alla fæðingarárganga 1955-2015 og jöfn réttindaávinnsla hliðrast niður um fimm ár og verður miðað við 40 ára tímann frá 20-59 ára, Ekki var gerð breyting á áföllnum réttindum. Ráðuneytið staðfesti loks tillögurnar í lok árs 2022 og tóku þær gildi 1. janúar 2023.  Miðað við eignastöðu sjóðsins eins og hún var í lok árs 2021 var gert ráð fyrir að jafnvægi næðist milli eigna sjóðsins og mats skuldbindinga með hinum breyttu samþykktum.

Eftir þrjú hagstæð ár hvað ávöxtun varðar reyndust aðstæður á öllum eignamörkuðum mjög erfiðar árið 2022. Nafnávöxtun allra eignaflokka var lítil sem engin eða neikvæð og á sama tíma var verðbólga meiri en þekkst hefur um langt skeið. Skuldbindingar sjóðsins við sjóðfélaga fylgja breytingum á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar og gat því ekki farið hjá því að trygginga-fræðileg staða sjóðsins versnaði verulega hvað varðar áunnar skuldbindingar sjóðsins. Á móti kemur að framtíðarstaða sjóðsins batnaði verulega með þeirri breytingu samþykkta sem áður er getið.

Stjórnarhættir og áhættustýring   

Lífeyrissjóður bænda leggur áherslu á góða stjórnarhætti við stefnumótun og daglega stjórnun sjóðsins. Með stjórnarháttayfirlýsingu, sem birt er á vef sjóðsins og í ársskýrslu, er sjóðfélögum, iðgjaldagreiðendum, opinberum aðilum, starfsmönnum og öðrum haghöfum veittar upplýsingar um stjórnarhætti sjóðsins. Yfirlýsingunni er jafnframt ætlað að styðja við góða stjórnarhætti hjá sjóðnum og styðja þannig við traustan rekstur. Stjórnarháttayfirlýsingin byggir á þeim lögum og reglum sem í gildi eru á þeim tíma sem ársreikningur sjóðsins er staðfestur af stjórn og framkvæmdastjóra.

Stjórn hefur sett sjóðnum áhættustefnu og áhættustýringarstefnu með það að markmiði að auka öryggi í rekstri sjóðsins. Stefnurnar grundvallast á lagafyrirmælum, reglugerðum og stefnumótun sjóðsins. Stefnurnar byggja á skilgreiningu á áhættustýringu sem felst í því að móta eftirlitskerfi  sem gerir sjóðnum kleift að greina, vakta, meta og taka  áhættu til meðferðar í starfsemi sjóðsins. Lögð er áhersla á að stefnurnar og framkvæmd þeirra sé virkur þáttur í starfseminni og að þær tengist ákvörðunarferlum hans í stefnumótandi málum varðandi innleiðingu sem og í daglegum rekstri. Einnig er lögð áhersla á að stjórn og stjórnendur hafi góða yfirsýn yfir helstu áhættuþætti í rekstri sjóðsins og að þeir hafi þekkingu á hlutverki sínu í ferli áhættustýringar og eftirlits og taki virkan þátt í því.  Mikilvægt er að stjórn, stjórnendur og aðrir starfsmenn meti áhættu og viðeigandi áhættuþætti við ákvarðanatöku eftir því sem eðlilegt er hverju sinni.

Í skýringu nr. 22 í ársreikningnum eru upplýsingar um áhættustýringu þar sem meðal annars er greint frá margvíslegum álagsprófum einstakra áhættuflokka miðað við mismunandi sviðsmyndir.

Hluthafastefna og stefna um ábyrgar fjárfestingar  

Hluthafastefna Lífeyrissjóðs bænda markar stefnu sjóðsins sem hluthafa í félögum, sem hann fjárfestir í. Stefnunni er ætlað að stuðla að faglegum samskiptum við stjórnir félaga sem sjóðurinn á hlut í sem og annarra hluthafa, auka gagnsæi í störfum sjóðsins og trúverðugleika á markaði.

Stefna um ábyrgar fjárfestingar markar stefnu sjóðsins um siðferðileg viðmið í fjárfestingum sem lífeyrissjóðum ber að setja sér samkvæmt 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyris-réttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Viðmið um ábyrgar fjárfestingar eru hluti af fjárfestingarstefnu sjóðsins og ber sjóðnum að líta til og stuðla að samfélagslegri ábyrgð þeirra félaga sem hann fjárfestir í. Sjóðurinn gerir kröfu um að þau fyrirtæki sem sjóðurinn fjárfestir í fari eftir lögum og reglum sem gilda um starfsemi þeirra. Mikilvægt er að fyrirtækin horfi til leiðbeininga um góða stjórnarhætti og viðmiða sem lúta að samfélagslegri ábyrgð og góðri umgengni um auðlindir.

Upplýsingastarf    

Lífeyrissjóður bænda leggur áherslu á að veita sjóðfélögum persónulega þjónustu. Samhliða því er einnig lögð áhersla á þróun rafrænna dreifileiða sem veita möguleika á sjálfsafgreiðslu og persónumiðaðri upplýsingagjöf. Helstu samskipta- og dreifileiðir eru vefsíða sjóðsins og sjóðfélagavefur fyrir hvern sjóðfélaga. Sjóðurinn sendir sjóðfélögum tvisvar á ári yfirlit yfir réttindi og greidd iðgjöld.

Eftir áritun ársreiknings er opinberlega gerð grein fyrir starfsemi og reikningum fyrir liðið ár. Sjóðurinn sendir greiðandi sjóðfélögum hálfsárslega yfirlit yfir móttekin iðgjöld ásamt útreikningi á áunnum lífeyrisréttindum. Á vefsíðu sjóðsins má nálgast almennar upplýsingar um sjóðinn, starfsemi, iðgjald, lífeyrisrétt og lánareglur.

Væntanleg þróun og framtíðarhorfur

Árið 2022 var ekki hagfellt fjárfestum. Væntingar standa hins vegar til þess að úr rætist á seinni árshelmingi ársins 2023 að því er varðar skuldabréfa- og hlutabréfamarkaði þrátt  fyrir áframhaldandi stríðsrekstur í Evrópu, orkuskort og pólitíska spennu á heimsvísu. Verðbólga er jafnframt víða ennþá viðvarandi vandamál þrátt fyrir miklar vaxtahækkanir, sem væntingar eru um að dragi úr verðbólgu. Við aðstæður sem þessar er vert að undirstrika mikilvægi áhættudreifingar hjá lífeyrissjóðum, sem er grunnþáttur í eignasöfnum þar sem fjárfestingartími er langur. Til að ná fram áhættudreifingu fjárfestir Lífeyrissjóður bænda meðal annars í ólíkum eignum, eignaflokkum og landsvæðum.

Atburðir eftir lok reikningsárs

Frá lokum reikningsárs fram að áritunardegi hafa ekki orðið neinir atburðir sem hafa haft verulega þýðingu á fjárhagsstöðu sjóðsins á reikningsskiladegi. Við mat á verulegri þýðingu er horft til metinnar og væntrar markaðsáhættu eignasafnsins á mánaðargrunni. Sveiflur á eignamörkuðum frá áramótum hafa ekki verið yfir því sem ætla mætti af gildandi eignasafni og áhættudreifingu.