Ávöxtun Lífeyrissjóðs bænda var afar góð á árinu 2019. Nafnávöxtun sjóðsins var um 12,9% á árinu eða um 9,9% raunávöxtun sem er næsthæsta raunávöxtun sjóðsins í 25 ár.
Ef horft er til síðastliðinna fimm ára er hrein meðalraunávöxtun sjóðsins 4,7% á ársgrundvelli, 5,0% til tíu ára og ef litið er til 25 ára sögu sjóðsins er meðalraunávöxtunin 4,1%.
Það er óhætt að segja að viðburðarríkt ár sé að baki á fjármálamörkuðum sem stóðu í skugga viðskiptastríðs Bandaríkjanna og Kína ásamt útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu nær allt árið.
Erlend hlutabréf var dráttarklár ársins og skilaði sá eignaflokkur Lífeyrissjóði bænda mestri ávöxtun árið 2019. Heimsvísitala hlutabréfa hækkaði um 25,2% mælt í bandaríkjadal, eða 30,2% í íslenskum krónum. Frá afnámi hafta hefur sjóðurinn aukið heldur við vægi erlendra eigna í eignasafni sjóðsins og standa þær nú í um 25% af heildareignum. Þrátt fyrir það hefur sjóðurinn fylgt frekar varfærinni stefnu í fjárfestingum samanborið við marga aðra lífeyrissjóði.
Innlend skuldabréf gáfu einnig mjög góða ávöxtun á árinu sem rekja má einna helst til lækkandi raunvaxtastigs og verðbólguálags. Lækkun verðbólguálags gerði það að verkum að óverðtryggð bréf gáfu almennt betur en verðtryggð á árinu, þar af skiluðu lengstu skuldabréfin heilt yfir bestu ávöxtuninni árið 2019. Ávöxtun verðtryggðra ríkisskuldabréfa var á bilinu 3,7% til 8,9% og ávöxtun óverðtryggðra á bilinu 5,3% til 23,0%.
Innlend hlutabréf sem eignaflokkur skilaði enn fremur almennt góðri ávöxtun árið 2019. Úrvalsvísitala hlutabréfa hækkaði um 31,4% á árinu sem má að miklu leyti rekja til gengisþróunar Marel þar sem félagið vigtar um helming vísitölunnar.
Á heildina litið var árið 2019 einkar hagfellt. Stjórn sjóðsins leitast ávallt við að hámarka ávöxtun að teknu tilliti til áhættu og tryggja þannig sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt gildandi lögum og ákvæðum samþykkta sjóðsins.