Varðar: Breytingar á framkvæmd tekjuathugana og á útreikningi örorkulífeyris úr lífeyrissjóðnum vegna tekna örorkulífeyrisþega samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

Hinn 31. ágúst sl. varð sú breyting á lögum um lífeyrissjóði að niður féll sú skylda lífeyrissjóða að líta framhjá hækkunum á greiðslum sem örorkulífeyrisþegar fá frá Tryggingastofnun ríkisins þegar réttur til örorkulífeyris hjá lífeyrissjóðnum er reiknaður út. Var þessu banni upphaflega komið tímabundið á með lögum á árinu 2011, en var síðar framlengt árlega, allt til 31. ágúst sl. Af þessu leiðir að lífeyrissjóðurinn mun við tekjuathugun örorkulífeyrisþega hér eftir framkvæma tekjuathugarnir sínar í samræmi við 15. gr. laga um lífeyrissjóði. Þar með verður á ný tekið mið af greiðslum að fullu sem örorkulífeyrisþegi nýtur hjá Tryggingastofnun ríkisins, þ.m.t. hækkunum sem hafa orðið og kunna að verða. Í þessu felst að við útreikning á örorkulífeyrisgreiðslum úr lífeyrissjóðnum verður miðað við „tekjuskerðingu“ af völdum orkutaps í skilningi laganna og samþykkta sjóðsins. Innleiðing þessarar breytingar mun eiga sér stað við tekjuathuganir sem munu eiga sér stað ársfjórðungslega á næstu 12 mánuðum, og koma að fullu til framkvæmda í lok tímabilsins, eða á 4. ársfjórðungi 2026. Þessi breyting getur haft áhrif á greiðslu örorkulífeyris frá Lífeyrissjóði bænda. Ef breyting verður á örorkulífeyri hjá einstaka örorkulífeyrisþega í tekjuathugun í nóvember hefur tilkynning þess efnis borist inn á island.is hjá viðkomandi lífeyrisþega.

Í tilefni af breytingu sem varð á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og gildi tóku hinn 31. ágúst sl., ákvað stjórn lífeyrissjóðsins á fundi sínum hinn 11. nóvember, að við athugun á tekjum örorkulífeyrisþega vegna útreiknings á örorkulífeyri úr sjóðnum, verði á ný tekið tillit til óskertra tekna örorkulífeyrisþega frá Tryggingastofnun ríkisins í samræmi við ákvæði 15. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og í samræmi við samþykktir sjóðsins.

Frá árinu 2011 var í gildi bráðabirgðákvæði XI við lög nr. 129/1997, sem var síðan framlengt árlega allt til 31. ágúst 2025, sem fól í sér að lífeyrissjóðnum var óheimilt að láta almennar hækkanir sem kynnu að verða á örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, leiða til lækkunar á örorkulífeyri sjóðfélaga úr lífeyrissjóðnum. Fól bráðabirgðaákvæðið í sér frávik frá 15. gr. laga nr. 129/1997 og ákvæðum samþykkta lífeyrissjóðsins um örorkulífeyri, þar sem kveðið er á um að réttur til örorkulífeyris skuli miðast við tekjuskerðingu sem viðkomandi verður fyrir vegna orkutaps. Tilefni lagasetningarinnar var að koma tímabundið í veg fyrir víxlverkun bóta almannatrygginga og lífeyrissjóðanna.

Til að bregðast við banni bráðabirgðaákvæðis XI, á því tímabili sem bráðabirgðaákvæðið tók til, var framkvæmdin sú að við ársfjórðungslegar tekjuathuganir lífeyrissjóðsins var litið framhjá almennum hækkunum sem höfðu orðið á örorkulífeyrisgreiðslum almannatrygginga. Nánar tiltekið voru örorkulífeyrisgreiðslur almannatrygginga, sem örorkulífeyrisþegi hafði fengið, lækkaðar um sem nam almennum prósentuhækkunum örorkulífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum nr. 100/2007 og lögum nr. 99/2007. Gilti þetta fyrirkomulag allt til 31. ágúst 2025.

Bráðabirgðaákvæði XI laga nr. 129/1997 rann sitt skeið á enda þann 31. ágúst 2025. Frá og með 1. September 2025 er ekki lengur kveðið á um að lífeyrissjóðnum sé ekki heimilt að láta almennar hækkanir á örorkulífeyrisgreiðslum almannatrygginga leiða til lækkunar á örorkulífeyri. Af því leiðir að lífeyrissjóðnum ber við framkvæmd tekjuathugana og útreikning örorkulífeyris að fara eftir ákvæði 15. gr. laga nr. 129/1997 og samþykktum lífeyrissjóðsins, sem mæla fyrir um að miðað sé við tekjuskerðingu sem leiðir af orkutapi hjá örorkulífeyrisþega.

Þá er athygli vakin á því að stjórn sjóðsins hefur jafnframt ákveðið að við tekjuathuganir verði hér eftir tekið mið af bótaflokkum Tryggingastofnunar ríkisins, sem kveðið var á um að ekki skyldi líta til í verklagsreglum sem settar voru um samspil örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrisjóða hinn 18. mars 2011.

Verklagsreglurnar voru settar á grundvelli 4. gr. samkomulags ríkissjóðs Íslands og Landssamtaka lífeyrissjóða, sem gert var 30. desember 2010, um víxlverkun bóta almannatrygginga og lífeyrissjóðanna. Höfðu verklagsreglurnar sama gildistíma og upphaflegt bráðabirgðaákvæði XI með lögum nr. 129/1997, þ.e. til 2013, en þeim var síðan fylgt í framkvæmd meðan bráðabirgðaákvæðið var framlengt árlega, eða til 31. ágúst sl.

Frá og með 1. september 2025 mun framkvæmd tekjuathugana og útreiknings örorkulífeyris því aftur verða eins og var þegar lög nr. 106/2011, sem innleiddu bráðabirgðaákvæðið, tóku gildi. Í því felst að við tekjuathuganir og útreikninga verður tekið fullt tillit til örorkulífeyrisgreiðslna almannatrygginga eftir 1. september 2025, þ.m.t. til almennra hækkana sem kunna að verða á þeim.

Til að gæta fyllsta samræmis við bráðabirgðaákvæði XI og til að tryggja meðalhóf vegna breyttrar framkvæmdar gagnvart örorkulífeyrisþegum verður hins vegar við tekjuathugun áfram litið fram hjá þeim almennu hækkunum á örorkulífeyrisgreiðslum almannatrygginga sem urðu á þeim tímabilum sem bráðabirgðaákvæði XI tók til. Við næstu tekjuathugun, þar sem horft verður til tekna örorkulífeyrisþega sl. 12 mánuði, verður þannig litið fram hjá þeim almennu hækkunum á greiðslum Tryggingastofnunar ríkisins sem orðið hafa á tímabilinu október 2024 til ágúst 2025 með sama hætti og áður en bráðabirgðaákvæði XI rann sitt skeið. Fullt tillit verður hins vegar tekið til tekna frá stofnuninni frá og með september 2025. Sama á við um bótaflokka Tryggingastofnunar ríkisins, sem litið var fram hjá á grundvelli verklagsreglanna frá 2011, sbr. hér að framan. Þessari framkvæmd verður viðhaldið þar til áhrifa bráðabirgðaákvæðisins og undanþágu verklagsreglnanna gætir ekki lengur, m.v. að horft sé til tekna örorkulífeyrisþega sl. 12 mánuði við tekjuathugun hverju sinni.

Áhrif þessara breytinga á framkvæmd gagnvart örorkulífeyrisþegum eru misjöfn eftir því hve lengi örorkulífeyrisþegi hefur fengið örorkulífeyri. Áhrif á einstaka sjóðfélaga í hverri tekjuathugun verða tilkynnt í bréfum til viðkomandi aðila.

Árétta ber að bráðabirgðaákvæði XI laga nr. 129/1997 fól í sér frávik frá 15. gr. laga nr. 129/1997 og ákvæðum samþykkta lífeyrissjóðsins um örorkulífeyri, enda fól það í sér að tekjuathuganir tóku ekki fullt tillit til tekna örorkulífeyrisþega og útreikningar örorkulífeyris endurspegluðu þar með ekki réttilega raunverulega tekjuskerðingu vegna orkutaps.

Framangreind breyting á framkvæmd tekur gildi við næstu tekjuathugun eftir 1. september 2025, sem fram fer í nóvember 2025 og tekur því til tímabilsins nóvember 2024 til og með október 2025.

Tilkynning þessi er birt á vefsíðu lífeyrissjóðsins þann 19. nóvember 2025 og send örorkulífeyrisþegum sama dag.

Ef breyting verður á örorkulífeyri hjá einstaka örorkulífeyrisþega í tekjuathugun í nóvember hefur tilkynning þess efnis borist inn á island.is hjá viðkomandi lífeyrisþega.