Ársfundur Lífeyrissjóðs bænda verður haldinn miðvikudaginn 11. júní 2025 kl. 14 að Stórhöfða 23, 4. hæð, Reykjavík. Á dagskrá eru venjuleg ársfundarstörf og niðurstöður stjórnarkjörs.

Lífeyrissjóður bænda auglýsir eftir framboðum til setu í stjórn sjóðsins: Eitt sæti í aðalstjórn til þriggja ára, karl eða konu og Þrjú sæti í varastjórn til eins, tveggja og þriggja ára.

Um almennt hæfi stjórnarmanna til setu í stjórn lífeyrissjóðs fer samkvæmt 31. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Framboðsfrestur er til og með 14. maí 2025. Framboð skulu sendast á netfangið kjornefnd@lsb.is.

Með framboði skulu fylgja helstu upplýsingar um frambjóðanda ásamt mynd til birtingar á vef sjóðsins. Taka skal fram hvort framboð er aðeins til aðalmanns, er aðeins til varamanns eða aðalmanns og varamanns til vara. Upplýsingar um stjórnarkjörið og hvaða gögnum beri að skila vegna framboðanna, má sjá á vef sjóðsins, www.lsb.is.

Í kafla 5.1 í samþykktum Lífeyrissjóðs bænda kemur fram:

,,Stjórn sjóðsins skal skipuð fimm mönnum kjörnum á ársfundi sjóðsins til þriggja ára í senn og þremur til vara. Sjóðfélagar skulu ekki vera færri en tveir af fimm stjórnarmönnum hverju sinni.Tveir stjórnarmenn skulu kosnir árlega en þriðja hvert ár skal kjörinn einn stjórnarmaður. Einn varastjórnarmaður skal kjörinn árlega.

Stjórnarkjör skal byggja á gildandi sjóðfélagaskrá í lok síðasta mánaðar áður en stjórnarkjör fer fram. Sérstök þriggja manna kjörnefnd, sem skipuð skal af stjórn, skal sjá um framkvæmd stjórnarkjörs. Hún úrskurðar um lögmæti framboða. Framboðsfrestur rennur út fjórum vikum fyrir ársfund, eða aukaársfund þar sem stjórnarkjör er á dagskrá. Kjörnefnd skal kynna framboð og frambjóðendur til stjórnar á vefsvæði sjóðsins ekki síðar en þremur vikum fyrir ársfund. Ef stjórn ákveður að stjórnarkjörið sé rafrænt, þá skal hin rafræna kosning standa í sjö daga og vera lokið a.m.k. tveimur dögum fyrir ársfund. Á þeim tíma skulu sjóðfélagar eiga þess kost að greiða atkvæði á skrifstofu sjóðsins á venjubundnum afgreiðslutíma hans eða með rafrænum hætti á grundvelli rafrænna skilríkja sinna, eða með íslykli. Að öðrum kosti fer stjórnarkjörið fram á ársfundi sjóðsins, eða á aukaársfundi þar sem stjórnarkjör er á dagskrá.

Ef ekki berast framboð til stjórnar innan framboðfrests, þannig að stjórn verði fullskipuð, skal stjórn auglýsa nýjan framboðsfrest sem skal ljúka þremur vikum fyrir ársfund, eða aukaársfund þar sem stjórnarkjör er á dagskrá. Stjórn skal í því tilviki tilkynna um frambjóðendur og kynna þá á heimasíðu sjóðsins svo fljótt sem mögulegt er, en þó aldrei síðar en tveimur vikum fyrir ársfund, eða aukaársfund þar sem stjórnarkjör er á dagskrá.

Allir sjóðfélagar hafa jafnan atkvæðisrétt við stjórnarkjör. Um stjórnarkjör gilda reglur um meirihlutakosningu, þannig að hver kjósandi geti kosið allt að þeim fjölda frambjóðenda sem kjósa á hverju sinni. Þeir teljast rétt kjörnir sem flest atkvæði fá, þó að gættum reglum um kynjakvóta. Kynjahalli í aðalstjórn skal leiðréttur í kynjahalla í varastjórn.“

Nánar síðar.