Almennar upplýsingar og hlutverk lífeyrissjóðsins    

Lífeyrissjóður bænda starfar í samræmi við lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, og samþykktir sjóðsins. 

Sjóðurinn rekur samtryggingardeild og eru iðgjöld 4% framlag launþega og 8% framlag atvinnurekanda. Frá og með 1. júlí 2018 er mótframlag vegna starfsmanna  11,5% en framlag er óbreytt hjá sjálfstæðum atvinnurekendum.  

Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt gildandi lögum og samþykktum sjóðsins.

Um ársreikninga lífeyrissjóða  

Ársreikningur sjóðsins er gerður samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 335/2015 um ársreikninga lífeyrissjóða. Í reglunum er meginreglan sú að eignir skulu metnar á gangvirði og er byggt á þeirri reglu í ársreikningnum. 

Fjöldi sjóðfélaga, launagreiðenda og iðgjöld     

Fjöldi virkra sjóðfélaga, þ.e. meðaltal fjölda sjóðfélaga sem greiddi iðgjald á árinu 2020 var 2.115, fjöldi þeirra sem á réttindi í sjóðnum var 10.945 í lok árs 2020 og meðaltal fjölda lífeyrisþega, sem fékk greiddan lífeyri á árinu var 4.005.

Heildariðgjöld námu 837 m.kr. á móti 760 m.kr. árið 2020, hækkuðu um 10,0%. Heildarlífeyrisgreiðslur námu 1.804 m.kr. á árinu 2020, sem er 5,5% hækkun frá fyrra ári.  Greiddur lífeyrir vegna áunninna réttinda var 1. 797 m.kr. og jókst um 5,5% milli ára.

Fjárfestingartekjur og rekstrarkostnaður

Hreinar fjárfestingartekjur námu 4.243 m.kr. á móti 4.337 m.kr. árið áður. Rekstrarkostnaður sjóðsins, þ.e. skrifstofu- og stjórnunarkostnaður nam 139 m.kr., hækkar um 8,3% frá fyrra ári.  Launakostnaður, þ.m.t. stjórnar og endurskoðunarnefndar nam 84,7 m.kr., þar af voru laun 69,1 m.kr. og launatengd gjöld 15,5 m.kr. Stöðugildi voru fimm á árinu.    

Hrein eign til greiðslu lífeyris

Hrein eign til greiðslu lífeyris nam 40.378 m.kr. í árslok 2020, hækkaði um 3.137 m.kr. frá fyrra ári eða um 8,4%.

Ávöxtun    

Hrein nafnávöxtun, þ.e. ávöxtun þegar rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá hreinum fjárfestingartekjum, var 11,2% sem samsvarar 8,3% raunávöxtun. Sambærilegar tölur fyrra árs voru 12,6% og 9,6%. Meðalraunávöxtun síðustu fimm ára er 4,8% og síðustu 10 ára 5,1%.

Tryggingafræðileg úttekt   

Í Tryggingafræðilegri úttekt í árslok 2020 eru áfallnar skuldbindingar 418 m.kr. umfram eignir eða 1,2% og heildarskuldbindingar 1.542 m.kr. umfram eignir eða 3,6% ef miðað er við framsetningu samkvæmt reglum nr. 335/2015 um ársreikninga lífeyrissjóða. Heildarstaða sjóðsins batnar um 1,2 prósentustig frá fyrra ári.

Ef miðað er við reglugerð nr. 391/1998 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyris-sjóða er neikvæð staða áfallinna skuldbindinga  1,1% og neikvæð staða heildarskuldbindinga 3,4% frá fyrra ári.

Lán til sjóðfélaga    

Sjóðurinn veitir bæði verðtryggð og óverðtryggð sjóðfélagalán.  Á árinu voru veitt fjögur ný lán, samtals að fjárhæð 120 m.kr.  Heildarfjárhæð útistandandi lána í lok ársins var 2.219 m.kr., lækkaði um 233 m.kr. milli ára eða um 9,5%.     

 

Hluthafastefna   

Hluthafastefna Lífeyrissjóðs bænda markar stefnu sjóðsins sem hluthafa í félögum, sem hann fjárfestir í. Stefnunni er ætlað að stuðla að faglegum samskiptum við stjórnir félaga sem sjóðurinn á hlut í sem og annarra hluthafa, auka gagnsæi í störfum sjóðsins og trúverðugleika á markaði.

Stefna um ábyrgar fjárfestingar    

Með ábyrgum fjárfestingum er átt við að litið sé til umhverfismála, félagslegra málefna og stjórnarhátta í fjárfestingum.  Stefna Lífeyrissjóðs bænda um ábyrgar fjárfestingar markar stefnu sjóðsins um siðferðileg viðmið í fjárfestingum sem lífeyrissjóðum ber að setja sér samkvæmt 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Stjórnarhættir og áhættustýring    

Lífeyrissjóður bænda leggur áherslu á góða stjórnarhætti við stefnumótun og daglega stjórnun sjóðsins.

Með stjórnarháttayfirlýsingu er sjóðfélögum, iðgjaldagreiðendum, opinberum aðilum, starfs-mönnum og öðrum haghöfum veittar upplýsingar um stjórnarhætti sjóðsins. Yfirlýsingunni er jafnframt ætlað að styðja við góða stjórnarhætti hjá sjóðnum og styðja þannig við traustan rekstur. Stjórnarháttayfirlýsingin byggir á þeim lögum og reglum sem í gildi eru á þeim tíma sem ársreikningur sjóðsins er staðfestur af stjórn og framkvæmdastjóra. Í því sambandi er sérstaklega litið til þeirra ákvæða laga nr. 129/1997 sem lúta að stjórnarháttum lífeyrissjóða, ákvæða samþykkta sjóðsins, reglna FME þar um, m.a. reglna nr. 335/2015 um ársreikninga lífeyrissjóða sem og 5. útgáfu leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja útgefnum af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland og Samtökum atvinnulífsins. Í stjórnarháttayfirlýsingunni er einnig yfirlit yfir ýmis lög, reglugerðir og aðrar reglur og viðmið varðandi stjórnarhætti sjóðsins. Stjórnarháttayfirlýsing fyrir árið 2020 er birt í heild í ársskýrslu sjóðsins.

Stjórn hefur sett sjóðnum áhættustefnu og áhættustýringarstefnu með það að markmiði að auka öryggi í rekstri sjóðsins. Stefnurnar grundvallast á lagafyrirmælum, reglugerðum og stefnumótun sjóðsins. Stefnurnar byggja á skilgreiningu á áhættustýringu sem felst í því að móta eftirlitskerfi  sem gerir sjóðnum kleift að greina, meta, vakta og stýra  áhættu í starfsemi sjóðsins, þar sem því verður við komið. Lögð er áhersla á að stefnurnar og framkvæmd þeirra sé virkur þáttur í starfseminni og að þær tengist ákvörðunarferlum hans í stefnumótandi málum varðandi innleiðingu sem og í daglegum rekstri. Einnig er lögð áhersla á að stjórn og stjórnendur hafi góða yfirsýn yfir helstu áhættuþætti í rekstri sjóðsins og að þeir hafi þekkingu á hlutverki sínu í ferli áhættustýringar og eftirlits og taki virkan þátt í því.  Mikilvægt er að stjórn, stjórnendur og aðrir starfsmenn meti áhættu og viðeigandi áhættuþætti við ákvarðanatöku eftir því sem eðlilegt er hverju sinni. Í skýringu nr. 22 í ársreikningnum eru upplýsingar um áhættustýringu þar sem meðal annars er greint frá margvíslegum álagsprófum einstakra áhættuflokka miðað við mismunandi sviðsmyndir.

Upplýsingastarf    

Eftir áritun ársreiknings birtir sjóðurinn auglýsingu í Bændablaðinu þar sem gerð er grein fyrir starfsemi og reikningum fyrir liðið ár. Sjóðurinn sendir greiðandi sjóðfélögum hálfsárslega yfirlit yfir móttekin iðgjöld ásamt útreikningi á áunnum lífeyrisréttindum. Á vefsíðu sjóðsins má nálgast almennar upplýsingar um sjóðinn, starfsemi, iðgjald, lífeyrisrétt og lánareglur. 

Væntanleg þróun og framtíðarhorfur   

Á árinu 2020 hafði sjúkdómurinn COVID-19 áframhaldandi veruleg og viðvarandi samfélags- og efnahagsleg áhrif á heimsvísu þar sem skorður hafa verið settar við atvinnustarfsemi og atvinnuleysi hefur aukist. Staða og framvinda sjúkdómsins hefur verið mjög ólík milli einstakra landa og heimsálfa.  Ísland hefur ásamt flestum öðrum löndum gengið í gegnum sína dýpstu efnahagslægð síðustu áratuga. Þar vegur þyngst hrun í allri ferðaþjónustu þar sem nær allt flug hefur lagst af vegna faraldursins. Þetta ástand hefur varað talsvert á annað ár en væntingar eru til þess að dragi úr áhrifum COVID-19 á seinni hluta árs 2021, a.m.k.  hjá þeim löndum sem ná víðtækri bólusetningu við sjúkdómnum. 

Áhrif COVID-19 á rekstur, efnahag og sjóðstreymi Lífeyrissjóðs bænda á árinu hafa verið óveruleg. Hugsanleg áhrif á rekstur sjóðsins voru í upphafi faraldurs talin geta verið samdráttur í greiddum iðgjöldum til sjóðsins vegna minnkandi umsvifa launagreiðenda, aukin vanskil þeirra og greiðsluerfiðleikar einstaklinga vegna aukins atvinnuleysis. Sjóðurinn vann á farsælan hátt náið með sjóðfélögum og launagreiðendum við að leysa úr þeirri stöðu sem upp gæti komið vegna COVID-19 og má gera ráð fyrir að verði viðvarandi um nokkurt skeið. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að fylgjast vel með þróun innheimtumála vegna iðgjalda og lántökum var boðið greiðsluhlé á lánum sínum til allt að sex mánaða með möguleika á framlengingu að þeim tíma loknum.

Sjóðurinn hagaði rekstri á skrifstofu í samræmi við sóttvarnaraðgerðir á hverjum tíma. Móttaka sjóðsins var lokuð hluta af árinu og sjóðfélagar hvattir til að sinna erindum sínum í gegnum rafrænar samskiptaleiðir. Á árinu voru umsóknir um lífeyri settar á vefinn og geta sjóðfélagar nú sótt rafrænt um lífeyri. Í samræmi við sóttvarnaraðgerðir var fjarvinna vaxandi þáttur í starfseminni og gekk það fyrirkomulag vel. Stuðst verður áfram við sama fyrirkomulag á árinu 2021 þar til annað verður ákveðið.

Þrátt fyrir neikvæð áhrif COVID-19 á efnahags- og markaðsaðstæður, var ávöxtun sjóðsins hins vegar góð. Við aðstæður sem þessar er vert að undirstrika mikilvægi áhættudreifingar hjá lífeyrissjóðum, sem er grunnþáttur í eignasöfnum þar sem fjárfestingartími er langur. Til að ná fram áhættudreifingu fjárfestir Lífeyrissjóður bænda meðal annars í ólíkum eignum, eignaflokkum og landsvæðum. Áhættu er þar af leiðandi dreift á þann veg að þótt lækkun verði á ákveðnum eignaflokki, á ákveðinni tegund eigna eða innan ákveðins landsvæðis eru líkur á að hún vinnist að hluta upp í hækkun á öðrum flokkum og dragi þannig úr sveiflum á eignasafni. Þess ber að geta að sjóðurinn hefur síðustu áratugi lagt upp með heldur varfærna fjárfestingarstefnu og hlutdeild erlendra eigna í eignasafni sjóðsins hefur vaxið um sjö prósentustig á tveimur árum, var í lok ársins 28,3% af eignasafni.

Á komandi árum mun sjóðurinn líkt og síðustu ár hafa áfram að höfuðmarkmiði að hámarka ávöxtun eigna innan ramma laga og fjárfestingarstefnu sjóðsins í þeim tilgangi að standa undir lífeyrisskuldbindingum svo og að hámarka réttindi sjóðfélaga.

Atburðir eftir lok reikningsárs    

Frá lokum reikningsárs fram að áritunardegi hafa ekki orðið neinir þeir atburðir sem hafa verulega þýðingu á fjárhagsstöðu sjóðsins.

Yfirlýsing stjórnar og framkvæmdastjóra 

Samkvæmt bestu vitneskju er það álit okkar að ársreikningur Lífeyrissjóðs bænda gefi glögga mynd af rekstrarafkomu sjóðsins á árinu 2020, eignum, skuldum og fjárhagsstöðu hans þann 31. desember 2020.

Stjórn og framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs bænda staðfesta hér með ársreikning sjóðsins fyrir árið 2020 með undirskrift sinni.   

Reykjavík, 29. apríl 2021.

Í stjórn

Lífeyrissjóðs bænda

Skúli Bjarnason

Erna Bjarnadóttir

Guðrún Lárusdóttir

Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir

Örn Bergsson      

Framkvæmdastjóri

Ólafur K. Ólafs