Ársfundur Lífeyrissjóðs bænda 2022:

Raunávöxtun 9,4% 2021

Á ársfundi Lífeyrissjóðs bænda 3. júní 2022 var lögð fram ársskýrsla sjóðsins fyrir liðið ár og árssreikningur
sjóðsins kynntur.

Fram kom í skýrslu stjórnar að heimsfaraldurinn COVID-19 hefur um tveggja ára skeið haft veruleg
samfélags- og efnahagsleg áhrif á heimsvísu. Áhrif heimsfaraldursins á rekstur, efnahag og sjóðstreymi
Lífeyrissjóðs bænda á árinu 2021 reyndust hins vegar óveruleg. Þrátt fyrir neikvæð áhrif á efnahags- og
markaðsaðstæður, hefur ávöxtun Lífeyrissjóðs bænda undanfarin tvö ár verið ein sú hæsta í sögu sjóðsins.

Stöðugur vöxtur á hreinni eign til greiðslu lífeyris.

Hrein eign til greiðslu lífeyris nam 45,1 milljarði króna í árslok 2021, hækkaði um 4,7 milljarða króna frá
fyrra ári eða um 11,7%. Hreinar fjárfestingartekjur námu sex milljörðum króna á móti 4,2 milljörðum króna
árið áður. Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðsins nam 139 m.kr. og er það nær óbreyttur kostnaður frá fyrra ári.

Hrein raunávöxtun var 9,4%.

Hrein nafnávöxtun, þ.e. ávöxtun þegar rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá hreinum fjárfestingartekjum,
var 14,7% sem samsvarar 9,4% raunávöxtun. Sambærilegar tölur fyrra árs voru 11,2% og 8,3%.
Hrein árleg raunávöxtun síðustu fimm ára var 8,0% og síðustu 10 ára 5,9%.

Lífeyrisgreiðslur námu 1.925 milljónum króna.

Á árinu 2021 voru virkir sjóðfélagar 1.989, þ.e. þeir sem að jafnaði greiða iðgjöld með reglubundnum hætti
í hverjum mánuði. Samanlagðar iðgjaldagreiðslur námu 790 m.kr. á móti 837 m.kr. árið 2020, lækkuðu um 5,6%.

Fjöldi þeirra sem á réttindi í sjóðnum var 10.829 í lok árs 2021 á móti 10.945 árið áður.

Á árinu fengu 4.494 lífeyrisþegar greiddan lífeyri. Meðaltal fjölda lífeyrisþega, sem fékk greiddan lífeyri á
árinu var 4.039 á móti 4.005 árið áður. Heildarlífeyrisgreiðslur námu 1.925 m.kr. á árinu 2021 á móti 1.804
m.kr. árið áður, sem er 6,7% hækkun frá fyrra ári.

Auknar skuldbindingar lífeyrissjóða með nýju reiknilíkani vegna lengri lífaldurs.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið tilkynnti í desember 2021 að lífeyrissjóðum bæri að taka mið af nýju
reiknilíkani FÍT (Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga) um lækkun aldursbundinnar dánartíðni þegar horft
er til framtíðar, annað hvort við uppgjör í lok árs 2021 eða 2022. Stjórn Lífeyrissjóðs bænda ákvað að taka
strax upp nýja reiknilíkanið miðað við uppgjör tryggingafræðilegrar stöðu í lok árs 2021.
Við mat á lífeyrisskuldbindingum verður því horft til væntrar þróunar lífaldurs í framtíðinni í stað þess að
miða við reynslu liðinna ára. Umtalsverð hækkun verður á mati skuldbindinga hjá lífeyrissjóðum við notkun
á nýju reiknilíkani fyrir lífslíkur þar sem gert er ráð fyrir lengri lífaldri frá því sem verið hefði með fyrri
forsendum.

Tryggingafræðileg staða batnar.
Metin hækkun áfallinna skuldbindinga hjá lífeyrissjóðum við upptöku nýs reiknilíkans er áætluð allt að 10%
þar sem gert er ráð fyrir hærri lífaldri til framtíðar.
Mjög góð ávöxtun Lífeyrissjóðs bænda á árinu 2021 veldur því að þrátt fyrir forsendubreytingarnar með
nýjum reiknigrunni, batnar tryggingafræðileg staða sjóðsins lítillega frá fyrra ári. Heildarskuldbinding
sjóðsins reiknast 3,2% umfram eignir og áfallin staða er jákvæð um 0,8% af skuldbindingum. Að óbreyttum
forsendum hefði heildarstaða Lífeyrissjóðs bænda verið metin jákvæð um 3,4% af skuldbindingum og
áfallin staða jákvæð um 7%.
Á ársfundinum voru kynntar mótvægisaðgerðir vegna nýja reiknilíkansins. Áunninn réttur verður
óbreyttur.
Frjáls aðild að Lífeyrissjóði bænda.
Lífeyrissjóður bænda er starfsgreinasjóður bænda. Með niðurfellingu sérlaga um Lífeyrissjóð bænda 2018,
geta allir launþegar gerst sjóðfélagar í sjóðnum og því er öllum launagreiðendum heimilt að greiða
lífeyrisiðgjöld fyrir starfsmenn sína til sjóðsins.